Jón Ásgeir og félög honum tengd greiddu Högum til baka aðeins um helming 810 milljóna króna láns sem Hagar veittu þegar ákveðið var að selja félagi Jóns Ásgeirs, Rauðsól, alla fjölmiðla 365 þegar ljóst var að rekstur fjölmiðlasamsteypunnar var á leið í þrot haustið 2008. Afganginum var breytt í 100 milljóna króna auglýsingainneign Haga hjá fjölmiðlum 365. Haga voru enn að nýta sér inneignina í vor á þessu ári.

Þetta er fullyrt í bókinni Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir blaðamennina Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson sem kom út í gær.

Reyndi að fá pening hjá TM

Í bókinni er m.a. rakið að rekstur 365 stefndi í þrot og hvernig sú ákvörðun var tekin í nóvember árið 2008 að selja alla fjölmiðla 365 til félags Jóns í því skyni að tryggja yfirráð hans yfir þeim. Þar segir að Jón hafi lagt inn ýmsar beiðnir til Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) í þeim tilgangi að fjármagna kaupin á fjölmiðlum 365. Þeim var hafnað og þurfti hann því að leita annarra leiða. Þá segir að ljóst þyki að Jón Ásgeir hafi ekki verið búinn að fjármagna kaupin þegar stjórn 365 samþykkti að selja alla fjölmiðlana til félags hans fyrir 1,5 milljarða króna.

Fékk afslátt

Úr varð að Hagar lánuðu Jóni Ásgeiri 810 milljónir króna til tveggja vikna svo hann gæti keypt fjölmiðlana áður en reksturinn fór í þrot. „Kaupin voru fjármögnuð með handbæru fé frá rekstri sem þýðir á mannamáli reiðufé af bankareikningi Haga,“ að því er segir í bókinni. Aðrir fjárfestar komu að kaupunum, m.a. Pálmi Haraldsson og nokkrir starfsmenn 365. Í bókinni kemur fram að Jón Ásgeir hafi ekki náð að afla sér 1,5 milljarða króna heldur 1.350 milljóna. Af þeim sökum hafi bæði gamla og nýja stjórn 365 ákveðið að veita Jóni Ásgeiri afslátt af kaupunum.

Í bókinni segir orðrétt um lánveitinguna og greiðslu þess:

„Þegar lánstíminn var liðinn var lengt í láninu en að endingu var tæpur helmingur þess, 393 milljónir króna, greiddur til baka í janúar 2009. Hinn helmingurinn hefur aldrei verið greiddur. Í skráningarlýsingu Haga sagði að sá helmingur hefði verið seldur til 365 miðla á 100 milljónir króna. Þar var ekki um raunverulega peningagreiðslu að ræða, heldur fengu Hagar, sem er einn stærsti auglýsandi á Íslandi, auglýsingainneign hjá 365 miðlum sem greiðslu fyrir hlutinn. Þá greiddi Jón Ásgeir í raun ekki fyrir hann, heldur fyrirtækin sem hann keypti fyrir lánið,“ og fullyrt að um klára tekjuskerðingu fyrir 365 miðla hafi verið að ræða til að tryggja yfirráð Jóns Ásgeirs yfir miðlunum.