Hagnaður Haga nam 800 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi. Þetta er tæpum 300 milljónum krónum meira en ári fyrr. Á fyrstu þremur ársfjórðungum rekstrarársins nam hagnaður fyrirtækisins 2.773 milljónum króna miðað við 2.063 milljónir króna ári fyrr.

Fram kemur í uppgjöri Haga að hagnaður fyrir skatta nam rétt rúmum einum milljarði króna á þriðja ársfjórðungi borið saman við 646 milljónir króna ári fyrr. Á fyrstu þremur ársfjórðungum rekstrarársins nam samanlagður hagnaður því 3.475 milljónum króna samanborið við 3.032 milljónir ári fyrr.

Sala jókst um 6,6%

Velta á þriðja fjórðungi nam tæpum 18 milljörðum króna samanborið við rúma 16,7 milljarða á fyrra rekstrarári. Á þremur ársfjórðungum nam veltan svo 55.790 milljónum króna samanborið við 52.314 milljónir króna árið áður. Söluaukning félagsins nam 6,6% á milli ára. Á sama tíma nam meðaltalshækkun vísitölu neysluverðs 3,7%.

Í uppgjöri Haga kemur fram að framlegð félagsins var 13.527 milljónir króna samanborið við 12.585 milljónir króna árið áður eða 24,2% samanborið við 24,1%. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 2,5% milli ára en kostnaðarhlutfallið lækkar úr 17,5% í 16,8%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4.236 milljónum króna, samanborið við 3.546 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var 7,6%, samanborið við 6,8% árið áður.

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 3.475 milljónum króna, samanborið við 2.612 milljónir króna árið áður.  Hagnaður eftir skatta nam 2.773 milljónum króna á tímabilinu eða tæplega 5,0% af veltu. Hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 2.063 milljónir.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 26.632 milljónum króna. Fastafjármunir voru 12.733 milljónir króna og veltufjármunir 13.899 milljónir króna. Þar af eru birgðir 6.432 milljónir króna. Hækkun birgða frá lokum febrúar skýrist að mestu með birgðasöfnun vegna jólavertíðar. Birgðir á sama tíma í fyrra námu 5.963 milljónum króna sem nemur 7,9% hækkun milli ára.

Eigið fé félagsins var 10.918 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 41,0%.  Heildarskuldir samstæðunnar voru 15.714 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 7.156 milljónir króna. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok tímabilsins voru 4.474 milljónir króna en 1.500 milljónir króna voru greiddar inn á langtímalán félagsins umfram lánssamning á tímabilinu, þar af 1.000 milljónir á þriðja ársfjórðungi.

Handbært fé frá rekstri lækkaði hins vegar á milli ára. Það nam 2.437 milljónum króna undir lok þriðja ársfjórðungs samanborið við 2.750 milljónir króna á fyrra ári.