*

föstudagur, 30. október 2020
Innlent 29. júlí 2020 17:02

Hagnaður Arion tvöfaldast

Hagnaður Arion banka nam 4,9 milljörðum á öðrum ársfjórðungi, kostnaðarhlutfall bankans er 45,5% samanborið við 69% á fyrri fjórðungi.

Alexander Giess
Höfuðstöðvar Arion banka eru í Borgartúni 19.
Haraldur Guðjónsson

Kostnaðarhlutfall Arion banka nam 45,5% á öðrum fjórðungi ársins, samanborið við 69% á fyrsta fjórðungi. Hreinar vaxtatekjur bankans jukust lítillega milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri bankans.

Eins og fram kom í fyrri tilkynningu Arion nam hagnaður bankans 4,9 milljörðum króna á öðrum fjórðungi ársins og arðsemi eiginfjár því 10,5% á ársgrundvelli. Hagnaður Arion nam 2,1 milljarði á sama tímabili árið 2019 og var arðsemi eiginfjár þá 4,3%.

Hagnaður bankans á fyrri hluta ársins dróst saman um 11,2% milli ára, úr 3,1 milljarði króna í 2,7 milljarða. Rekstrarhagnaður (EBITDA) bankans lækkaði lítillega á sama tímabili, úr 23,9 milljörðum króna í 23 milljarða. Hreinn vaxtamunur bankans var 2,9% samanborið við 2,8% á fyrra ári.

Lausafjárstaða félagsins styrktist þar sem ekki varð af fyrirhugaðri 10 milljarða króna arðgreiðslu, bankinn gaf út skuldabréf undir viðbótar eiginfjárþætti 1 og innlán jukust. Heildareignir námu 1.182 milljörðum króna í lok fjórðungsins, samanborið við 1.082 milljarða í árslok 2019.

Arion niðurfærði eignir fyrir 918 milljónir króna á öðrum fjórðungi, samanborið við 2.860 milljónir á fyrsta fjórðungi ársins. Sú tala nam 988 milljónum á öðrum fjórðungi árið 2019. Mikil óvissa ríkir enn um lánabók bankans sökum heimsfaraldursins.

Rekstrartap Valitor, dótturfélag Arion, nam 1,3 milljörðum króna á fyrri hluta ársins 2020. Rekstraráhrif Valitor á samsteypuna voru neikvæð um 870 milljónir króna en Arion hyggst selja 100% hlut sinn í Valitor innan árs. Rekstraráhrif kísilframleiðandans Stakksberg, sem er einnig dótturfélag Arion, voru jákvæð um 344 milljónir.

Kostnaður lækkar talsvert

Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði talsvert og nemur nú 45,5%, samanborið við 54,2% fyrir ári, og lækkaði því úr 69% frá fyrsta fjórðungi ársins. Markmið bankans er að halda kostnaðarhlutfalli sínu í um það bil 50%. Eins og áður var sagt nam arðsemi eiginfjár 10,5% á ársgrundvelli en markmið bankans er að ná arðsemi umfram 10%.

Rekstrargjöld félagsins fóru úr 6,6 milljörðum króna í 6,4 milljarða milli ára.

Hlutfall almenns eigin fjár (CET1) hækkaði lítillega milli fjórðunga og nemur nú 22,9% en markmið bankans er að lækka hlutfallið niður fyrir 17%.

„Afkoma Arion banka á öðrum ársfjórðungi er góð og við náum markmiði okkar um 10% arðsemi. Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að eiginfjárstaða bankans er afar sterk og langt umfram kröfur eftirlitsaðila. Regluleg starfsemi bankans þróast með jákvæðum hætti á fjórðungnum en óvenjulega háar fjármunatekjur, bæði af hluta- og skuldabréfum, hafa mjög jákvæð áhrif á afkomuna. Það er því áfram forgangsatriði að bæta enn frekar okkar reglulegu starfsemi.

Starfsemi dótturfélaganna Varðar og Stefnis gengur vel og dregið hefur úr taprekstri Valitor en í upphafi árs var ráðist í endurskipulagningu á félaginu sem er til sölu. Markmiðið er að styrkja kjarnastarfsemi Valitor og var m.a. starfsemi félagsins í Danmörku seld á fjórðungnum. Þó enn sé nokkuð í land að markmiðum endurskipulagningar félagsins verði náð er ljóst að umtalsverður árangur hefur nú þegar náðst,“ er haft eftir Benedikt Gíslasyni bankastjóra Arion banka.