Kaldalón fasteignafélag skilaði tæplega 3,2 milljarða króna hagnaði eftir skatta á árinu 2023, samanborið við 2,1 milljarð árið áður. Arðsemi eigin fjár var 15% á ársgrundvelli.

„Árangur og afkoma ársins er mjög góð í núverandi starfsumhverfi. Kaldalón á umtalsvert inni og mun sýna það þegar fasteignir á efnahag verða að fullu tekjuberandi, en einungis 65% fjárfestingareigna félagsins voru að fullu tekjuberandi allt árið 2023," segir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns í afkomutilkynningu.

Fasteignasafn félagsin var metið á 57,8 milljarða í árslok 2023 samanborið við 41,7 milljarða ári áður, samkvæmt ársreikningi sem birtur var um eittleytið í dag.

Félagið hefur gefið út að það sé í vaxtarfasa og skilgreini sig sem vaxtarfélag þar til að verðmæti fjárfestingareigna nemur 100 milljörðum króna, eða leigutekjur félagsins verði 8 milljarðar eða meira á ársgrundvelli. Gerir félagið ráð fyrir að hefja arðgreiðslur eða endurkaup á eigin bréfum vegna afkomu ársins 2026 eða fyrr.

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins kemur fram að samstæðan átti í lok síðasta árs árs 42 fasteignir til útleigu sem telja um 102 þúsund fermetra. Heildarstærð safnsins verður um 120 þúsund fermetrar að teknu tilliti til tilkynntra viðskipta.

Stefna Kaldalóns er að stækka safn tekjuberandi eigna í starfsemi félagsins. Félagið gaf á árinu út fjárfestingarstefnu þar sem félagið horfir m.a. til fjárfestinga á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni helstu innviða s.s. hafnir og flughafnir. Þeir eignaflokkar sem félagið leggur áherslu á eru vöruhús og iðnaður, verslun og þjónusta auk hótela.

Leigutekjur Kaldalóns jukust úr 1.722 milljónum í 3.222 milljónir á milli ára eða um 87%. Tekjuvegið útleiguhlutfall afhentra eigna í samstæðunni í heild í árslok var 98,6%. Stórt hlutfall eigna félagsins er í langtímaleigu en tekjuvegin lengd leigusamninga er 10,8 ár.

Rekstrargjöld námu 740 milljónum og jukust um 62% frá fyrra ári, en undir þessum lið á árinu 2023 féll tæplega hundrað milljóna kostnaður í tengslum við skráningu félagsins á aðalmarkað Kauphallarinnar í nóvember sl. og öfuga skiptingu hluta.

Hrein fjármagnsgjöld Kaldalóns námu 2,2 milljörðum og jukust um rúman milljarð frá fyrra ári. Vaxtaberandi skuldir námu nærri 30 milljörðum í árslok 2023 samanborið við 19,8 milljarða í lok árs 2022.

Tækifæri í endurfjármögnun

Í afkomutilkynningu segjast stjórnendur félagsins telja tækifæri liggja í endurfjármögnun félagsins. Um helmingur fjármögnunar félagsins sé á óverðtryggðum vöxtum og þrír fjórðu hlutar á breytilegum vöxtum. „Þrátt fyrir það er rekstrarhagnaður hærri en fjármagnsgjöld.“

Kaldalón segir að mikilvægir áfangar hafi náðst með grunnlýsingu fyrir 30 milljarða króna útgáfuramma og því hefur félagið nú aðgengi að markaðsfjármögnun. Jafnframt náði félagið samkomulagi við lánveitendur um að setja 69% af vaxtaberandi skuldum félagsins undir almennt tryggingafyrirkomulag fyrir lok árs 2023.

„Í samræmi við stefnu félagsins þá er skuldsetning þess hlutfallslega lægri en almennt gerist hjá sambærilegum fasteignafélögum hérlendis. Veðsetningarhlutfall er hins vegar undir markmiðum og félagið því í kjörstöðu til að grípa virðisaukandi tækifæri. Það verður gert,“ segir Jón Þór.