Hagnaður Norvik nam 10,6 milljónum evra, eða 1,7 milljörðum króna, á síðasta ári. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 15,3 milljónum evra samanborið við 15,9 milljónir árið áður. Norvik er móðurfélag Byko, fasteignafélagsins Smágarðs, Hólf og gólf og rússneska félagsins Norwood SM.

Eignir samstæðunnar námu 269 milljónum evra í árslok 2019. Eigið fé var um 196 milljónir evra, skuldir 73 milljónir evra og eiginfjárhlutfallið var því um 72,8%. Félagið greiddi út 3,5 milljónir evra í arð og keypti eigin bréf fyrir 2,8 milljónir evra á síðasta ári.

Jón Helgi Guðmundsson stjórnarformaður á 27,8% hlut í Norvik. Eignarhaldsfélagið Sterna á 42,3% en eigendur þess eru þau Guðmundur Halldór Jónsson, Iðunn Jónsdóttir og Steinunn Jónsdóttir, samkvæmt vef Skattsins. Guðmundur og Steinunn eiga einnig hvort um sig 9% beinan hlut í Norvik og Iðunn 7% hlut. Brynja Halldórsdóttir er framkvæmdastjóri Norvik.