Hagnaður Regins nam 2,2 milljörðum króna á síðasta ári og rekstrartekjur félagsins námu 4,8 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var rúmir þrír milljarðar. Bókfært virði fjárfestingareigna í lok árs var 53,6 milljarðar króna og matsbreytingar á árin var 1,2 milljarðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Handbært fé frá rekstri nam 1,7 milljörðum króna og vaxtaberandi skuldir voru 32,8 milljarðar í lok ársins miðað við 24,8 í árslok 2013. Eiginfjárhlutfall var í lok árs 32,7%.

„Afkoma Regins á árinu 2014 var góð og í samræmi við áætlun félagsins. Rekstrartekjur námu 4.765 m.kr.og þar af námu leigutekjur 4.237 m.kr. Leigutekjur hafa hækkað um 20% samanborið við árið 2013. Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir / EBITDA var 3.035 m.kr. sem samsvarar 23% hækkun samanborið við árið 2013. Stjórn félagsins leggur til að ekki verður greiddur arður á árinu 2015. Aðalfundur félagsins verður haldinn 21. apríl nk. Eignasafn og efnahagur Eignasafn Regins samanstendur af fullgerðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Í lok árs 2014 átti Reginn 53 fasteignir. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins var 224 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins er um 97% miðað við tekjur,“segir í tilkynningunni.