Írska flugfélagið Ryanair hagnaðist um 867 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi og jókst hann þannig um 66% frá sama tímabili í fyrra, en þetta kemur fram í frétt BBC News .

Afkoman er nokkru betri en búist hafði verið við og sagði Michael O'Leary, forstjóri flugfélagsins, að farþegum þess hefði fjölgað um milljónir milli ára. Lækkandi olíuverð hafði einnig jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins.

Farþegum fjölgaði um 11% milli ára og voru þeir nú 90,6 milljónir talsins á tímabilinu. Tekjur Ryanair jukust um 12% á milli ára og voru nú rúmír 5,6 milljarðar evra.

Þá tilkynnti Ryanair að flugfélagið hefði pantað 183 Boeing 737-800 þotur til afhendingar milli 2014 og 2018 og 200 Boeing 737 Mx 200 þotur til afhendingar milli 2019 til 2023. Er það gert til þess að mæta aukinni eftirspurn á næstu árum.