Hagnaður Skipta nam á fyrri helmingi ársins nam 1.337 milljónum króna, samanborið við 465 milljónir á sama tímabili í fyrra. EBITDA hagnaður nam 4,0 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs, en var 4,1 milljarður á sama tím aí fyrra. EBITDA hlutfall var 26,2% í ár, en 27,2% í fyrra. Kemur þetta fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Sala jókst um 2,5% á milli ára og nam 15,3 milljörðum króna samanborið við 14,9 milljarða á sama tímabili árið áður. Tekjur af sambærilegri starfsemi vaxa um 6,3% þar sem tekjur af starfsemi Símans DK í Danmörku eru eingöngu í reikningum félagsins til 1. apríl 2014 en félagið hefur verið selt.

Vaxtaberandi skuldir námu 26,1 milljarði við lok tímabils en voru 27,2 milljarðar árið áður. Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 46,7% og eigið fé er 28,2 milljarðar króna.

Í tilkynningunni er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra fyrirtækisins, að afkoman sé ásættanleg. Mjög mikil samkeppni ríki á fjarskiptamarkaðnum. Hann segir að á tímabilinu hafi fyrirtækið fjárfest fyrir tæpa 2,2 milljarða króna sem séu mestu fjárfestingar félagsins um árabil og aukning um 300 milljónir milli ára. Undirbúningur er hafinn að skráningu félagsins í kauphöll og er gert ráð fyrir skráningu á fyrri hluta árs 2015.