Ramses II, eignarhaldsfélag Eyþórs Arnalds, athafnamanns og fyrrverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, utan um hlut hans í Þórsmörk, móðurfélagi Árvakurs útgáfufélags Morgunblaðsins, hagnaðist um 388 milljónir á síðasta ári. Hagnaðurinn er að mestu kominn til vegna niðurfelling á láni frá félaginu Kattarnefi ehf, sem er í eigu Samherja. Lánið var veitt vegna kaupa Ramses II á hlutum í Þórsmörk árið 2017, að mestu af Kattarnefi. Lánið gjaldféll árið 2020 en hafði þegar verið fært niður að fullu í bókum Kattarnefs. Í ársreikningi Ramses II kemur fram að aðrir fjármagnsliðir séu jákvæðir um 372 milljónir króna árið 2021.

Hlutur Ramses II í Þórsmörk var bókfærður á 325 milljónir króna við kaupin árið 2017 og nam 23% í félaginu en hefur þynnst út á síðustu árum eftir hlutafjáraukningar í Þórsmörk.

Ramses II á nú tæplega 12% hlut í Þórsmörk sem bókfærður var um áramótin á 100 milljónir króna. Bókfært virði hlutarins hafði einnig lækkað frá kaupunum vegna hlutdeildar í taprekstri Þórsmerkur árin 2017 til 2020. Hins vegar var hagnaður af rekstri Þórsmerkur á síðasta ári sem skilaði sér jákvæðri afkomu hjá Ramses II upp á 17 milljónir króna árið 2021.

Skuldir Ramses II lækka á milli ára úr 387 milljónum í 16 milljónir króna á milli ára. Þá batnar eiginfjárstaðan úr 305 milljóna króna neikvæðu eigin fé í 84 milljóna jákvætt eigið fé. Eignir hækka úr 82 milljónum í 100 milljónir króna.