Hagnaður Baugs Group á fyrstu sex mánuðum ársins 2005 nam 10,6 milljörðum króna eftir skatta. Heildareignir Baugs Group eru bókfærðar á 101 milljarð króna í lok júní 2005. Eigið fé félagsins nemur 46 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall félagsins er 45%. Arðsemi eigin fjár er um 60% á ársgrundvelli.

Góð afkoma félagsins stafar af innleystum og óinnleystum hagnaði af fjárfestingum félagsins í Bretlandi, Danmörku og Íslandi en Baugur Group er kjölfestufjárfestir og leiðandi söluaðili þekktra vörumerkja í þessum þremur löndum.

Velta félaga í eigu Baugs nam á síðasta rekstrarári um 866 milljörðum króna og EBITDA hagnaður þeirra var um 37 milljarðar króna. Í eigu þessara fyrirtækja eru 2.600 verslanir og hjá þeim starfa um 55 þúsund manns á Íslandi, Bretlandi og Norðurlöndum.

Þá hefur Baugur Group aukið fjárfestingar í skráðum félögum og er í dag á meðal helstu fjárfesta í FL Group hf., Íslandsbanka hf., Straumi fjárfestingarbanka hf. og Burðarási hf.

"Staða Baugs Group er sterkari en nokkru sinni fyrr. Félagið hefur byggt upp eignasafn sem samanstendur af félögum með þekkt vörumerki sem öll eiga það sammerkt að bjóða neytendum betri vöru og betri þjónustu en þekkist annarsstaðar. Þekking og reynsla starfsmanna Baugs Group á smásölu og fjárfestingastarfsemi hefur nýst þessum félögum í uppbyggingarstarfsemi þeirra og gefið þeim forskot á samkeppnina. Félagið mun áfram leita hagstæðra fjárfestingartækifæra og leitast við að efla starfsemina enn frekar," segir í frétt félagsins.