Hagnaður Íslandsbanka nam 4.801 milljónum kr. á þriðja ársfjórðungi samanborið við spá okkar um 4.055 milljóna kr. hagnað. Frávikið skýrist bæði af meiri tekjum og lægri kostnaði. Mestu munar um meiri vaxtatekjur en einnig varð betri afkoma af hlutdeildarfélögum (þar á meðal Sjóvá). "Rekstrarkostnaður var minni en við áætluðum sem og virðisrýrnun útlána og krafna," segir í Vegvísi Landsbankans.

Hreinar vaxtatekjur námu 6.713 milljónum kr. en Landsbankamenn gerðu ráð fyrir að hreinar vaxtatekjur myndu nema 6.450 milljónum kr. Hreinar vaxtatekjur aukast verulega á milli fjórðunga því á öðrum fjórðungi námu þær 5.586 m.kr. Þessi mikla aukning skýrist af miklum útlánavexti hjá bankanum á 2. ársfjórðungi en auk þess var mikil verðbólga á fjórðungnum sem hefur jákvæð áhrif þar sem að verðtryggingarjöfnuður bankans er jákvæður. Við fyrstu sýn virðist sem að verðbólgan á 3. ársfjórðungi hafi haft meiri áhrif á hreinu vaxtatekjurnar en við vorum að gera ráð fyrir, þar sem að vaxtatekjurnar hjá fjárstýringunni fóru úr 115 m.kr. á 2. fjórðungi í 790 m.kr. á 3. fjórðungi.

Þóknanatekjur námu 2.007 m.kr. sem er lítilsháttar undir væntingum Landsbankans um 2.100 m.kr. Gengishagnaður nam 785 m.kr. sem er meiri hagnaður en við gerðum ráð fyrir. Mestur var gengishagnaðurinn af afleiðusamningum eða 455 m.kr. og síðan af hlutabréfum (451 m.kr.). Þá var 89 m.kr. hagnaður vegna gjaldeyris en 118 m.kr. tap var af skuldabréfum.

Rekstrarkostnaður nam 3.539 milljónum kr. en Landsbankamenn áætluðu að kostnaðurinn myndi nema 3.700 m.kr. Rekstrarkostnaður lækkar um 200 m.kr. á milli fjórðunga en þar munar mestu um að kostnaður hjá viðskiptabankasviði á Íslandi lækkar um 320 m.kr. á milli fjórðunganna. Þá nam virðisrýrnun útlána og krafna 494 m.kr. sem er 0,1% af meðalstöðu efnahagsreiknings bankans. "Þessi niðurstaða er talsvert undir áætlun okkar um 650 m.kr. virðisrýrnun og skýrist munurinn m.a. af því að það var neikvætt framlag á afskriftareikning útlána hjá bæði Viðskiptabankasviði í Noregi og hjá Fjárfestinga og alþjóðasviði," segir í Vegvísi Landsbankans.

Nánar verður fjallað um uppgjör Íslandsbanka í Áliti Landsbankans á uppgjöri á morgun.