Sala Marel á fyrstu níu mánuðum ársins 2005 nam alls 94,3 milljónum evra eða 7,5 milljörðum króna samanborið við 83,2 milljónir (ISK 7,3 milljarðar) árið áður. Salan hefur því aukist um 13,3%. Rekstrarhagnaður Marel fyrstu níu mánuði ársins 2005 var 8,4 milljón evra eða 9,0% af sölu samanborið við 9, 2 milljónir árið 2004.

Hagnaður Marel samstæðunnar á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2005 nam 5,1 milljón evra (ISK 408 milljónir) samanborið við 6,1 milljónir evra (ISK 531 milljón) árið áður. Lækkunin skýrist annars vegar af lægri framlegð vegna óhagstæðrar gengisþróunnar og hins vegar af gengistapi í fjármagnsliðum.

Framlegð af vörusölu á tímabilinu var 31,9 milljón evra eða 33,8% af sölu samanborið við 30,4 milljónir eða 36,6% af sölu á sama tíma árið áður. Þessi hlutfallslega lækkun var fyrirsjáanleg og skýrist einkum af óhagstæðri gengisþróun. Tekjur í íslenskum krónum voru rúm 3% af heildarsölu samstæðunnar, en útgjöld voru um 23%, einkum laun starfsmanna hér á landi. Krónan hefur styrkst um tæp 10% gagnvart evru frá meðaltali fyrstu níu mánaða ársins 2004 til sama tíma 2005.

Rekstrargjöld önnur en kostnaðarverð seldra vara námu 24,1 milljón evra og voru 25,6% af sölu samanborið við 26,0% árið áður. Sölu- og markaðskostnaður var 11,7 milljónir evra sem er um 14,1% hærra en á fyrra ári. Gjaldfærður þróunarkostnaður, þar með taldar afskriftir af vöruþróunarkostnaði fyrri ára, var um 5,0 milljónir evra, sem er hækkun um 12%. Bæði í sölu- og markaðsstarfi og í vöruþróun hefur megin áhersla verið á aukna framleiðni og aukin samlegðaráhrif með meiri samþættingu innan samstæðunnar samhliða því að efla starfsemina til þess að styðja við vaxtarmarkmið félagsins. Stjórnunarkostnaður var 7,5 milljón evra samanborið við 6,9 milljónir árið áður eða hækkun um 8,7%. Launakostnaður samstæðunnar nam alls 38,3 milljónum evra sem er um 40,6%. Sambærilegt hlutfall á sama tíma í fyrra var 41,3%.

Fjármagnskostnaður umfram fjármunatekjur nam 2,1 milljón evrum samanborið við 1,2 milljónir evra í fyrra. Hækkunina má einkum rekja til gengistaps að upphæð um 629 þús. evrur. Einnig hafa vextir af rúmlega 40% af skuldum félagsins hafa verið festir til 3 til 5 ára.

Hagnaður Marel samstæðunnar á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2005 nam 5,1 milljón evra (ISK 408 milljónir) samanborið við 6,1 milljónir evra (ISK 531 milljón) árið áður. Lækkunin skýrist annars vegar af lægri framlegð vegna óhagstæðrar gengisþróunnar og hins vegar af gengistapi í fjármagnsliðum.

Heildareignir samstæðunnar í lok september 2005 voru bókfærðar á 107,0 milljónir evra og hafa þær aukist um 11,5 milljónir eða 12,1% frá síðustu áramótum. Þá hækkun má að mestu rekja til aukningar í birgðum og viðskiptakröfum. Birgðir hækka um 3,0 milljónir evra og. viðskiptakröfur um 5,9 milljónir evra frá síðustu áramótum. Þessi aukning á birgðum og viðskiptakröfum skýrist annars vegar af veltuaukningu og að mikið var af afhendingum um og eftir lok ársfjórðungsins.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum á fyrstu níu mánuðum árins 2005 fyrir 2,3 milljónir evra, samanborið við 1,1 milljónir á sama tíma í fyrra. Rekja má hluta fjárfestinga á tímabilinu til þess að áætlaðar fjárfestingar ársins 2004 færðust fram á þetta ár.

Handbært fé frá rekstri nam 5,9 milljónum evra samanborið við 9,5 milljónir árið áður. Munar þar mest um aukna fjárbindingu í birgðum og viðskiptakröfum, en á móti kemur að hluta aukning í viðskiptaskuldum. Í lok 3. ársfjórðungs 2005 var handbært fé 5,4 milljónir evra sem er nánast óbreytt frá sama tíma 2004.

Starfsmenn Marel samstæðunnar voru að jafnaði 860 á tímabilinu janúar til september 2005 samanborið við 846 á sama tíma árið áður. Af þessum 860 voru 330 á Íslandi og 530 erlendis í 15 fyrirtækjum í 11 löndum.