Hagnaður Microsoft tvöfaldaðist á síðasta fjórðungi vegna aukinnar eftirspurnar og kostnaðaraðhalds. Hagnaður Microsoft, sem er stærsti framleiðandi hugbúnaðar í heiminum, nam 3,46 milljörðum dollara á ársfjórðunginum. Sala og hagnaður var umfram spár greiningaraðila og verð hlutabréfa í félaginu hækkaði í kjölfarið. Sala fyrirtækisins á tölvuleiknum Halo 2 fyrir Xbox leikjatölvuna gekk vonum framar og skilaði góðum hagnaði segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þá hefur gengislækkun dollara ekki komið fyrirtækinu illa heldur hagnaðist það um 250 milljónir dollara á fjórðungnum vegna veikingar dollars. Nú er reiknað með meiri tekjum en áður á fjárhagsárinu, sem endar í júní, og spáð að þær verði um 40 milljarðar dollara segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.