Hagnaður sænska fjármálafyrirtækisins SEB var í sögulegu hámarki í fyrra, og jókst um 14% á milli ára, segir greiningardeild Landsbankans. Hagnaður bankans var 68,2 milljarðar króna á síðastliðnu ári.

Sérfræðingar telja afkomu félagsins góða og benda sérstaklega á vöxtinn í þóknanatekjum, sem var 16%. Arðsemi eigin fjár var 15,8% og batnar lítillega á milli ára, segir greiningardeildin.

Til samanburðar var arðsemi eigin fjár íslensku bankanna árið 2005 á bilinu 30-45% og vöxtur þóknanatekna þeirra 30-90%, segir greiningardeild Landsbankans.

Tekjuaukning SEB var 14% á milli ára. Samtals voru tekjur fyrirtækisins 276 milljarðar króna árið 2005. Hreinar vaxtatekjur námu 115 milljörðum og þóknunartekjur voru 110 milljarðar króna.

Tekjur af líftryggingum jókst mest, eða um 68%. Þær námu 19 milljörðum króna.

Heildareignir SEB námu 15.400 milljörðum íslenskra króna í lok árs. Á sama tíma námu heildareignir íslensku bankanna 5.400 milljörðum íslenskra króna. Það er um þriðjungi minna.

Félagið er skráð í kauphöllinni í Stokkhólmi. Á síðustu tólf mánuðum hefur gengi bréfa í félaginu hækkað um tæplega 40%, þar af um tæp 9% frá áramótum.