Hagnaður samstæðu VÍS eftir skatta fyrstu 9 mánuði ársins 2004 nam 1.557 milljónum króna. Hagnaður af vátryggingarekstri nam 1.296 milljónum króna og hagnaður af fjármálarekstri nam 731 milljón króna.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að það sem einkennir reksturinn fyrstu níu mánuði ársins 2004, í samanburði við fyrra ár, er umtalsverð lækkun iðgjalda í skaðatryggingum og betri afkoma af fjármálarekstri, einkum vegna söluhagnaðar af hlutabréfum. Þá skilar rekstur Líftryggingafélags Íslands góðri niðurstöðu. Fækkun alvarlegra slysa hefur leitt til þess að tjónakostnaður minnkar frá fyrra ári , sem veitt hefur svigrúm til lækkunar iðgjalda. VÍS hefur á síðustu 12 mánuðum lækkað iðgjöld sín verulega og þess vegna eru tekjur félagsins af iðgjöldum minni nú en á sama tímabili í fyrra.