Alls bárust 8 gild tilboð í RIKB 11 að fjárhæð 3,9 milljarða króna í útboði sem Lánamál ríkisins héldu í gær. Tilboðum var tekið fyrir 2,3 milljarða króna og var ávöxtunarkrafa þeirra 7,35%, 15 punktum undir því hámarki sem ríkissjóður setti í útboðinu.

Um þetta er fjallað í Hagsjá, vefriti hagfræðideildar Landsbankans en á tilkynningu um niðurstöður útboðsins er ekki hægt að sjá hver dreifing tilboðanna var þar sem öll samþykkt tilboð buðust bjóðendum á sömu kröfu, þeirri hæstu sem samþykkt var.

Hagsjá segir að eftirspurnin hafi hins vegar veriðn töluvert meiri í hinn flokkinn sem var í boði, RIKB 25. Alls bárust 55 gild tilboð í hann að fjárhæð 22,1 milljarð króna og var tilboðum tekið fyrir 12,8 milljarða að nafnvirði með ávöxtunarkröfuna 8,15%. Við lokun markaða á fimmtudag var ávöxtunarkrafa RIKB 25 8,09% og var krafa útboðsins því 6 punktum hærri.

Alls var því tilboðum fyrir 15,1 milljarð króna tekið í gær og segir Hagsjá því litlar líkur á að ríkissjóður klári að bjóða út þá 60 milljarða króna sem tilkynnt var um í september að boðnir yrðu út á síðustu mánuðum ársins. Einungis sé einn dagur frátekinn á útboðsdagatali Lánamála ríkisins það sem eftir lifir af árinu auk þess sem ríkissjóður hafi gefið til kynna að hann kjósi heldur lægri vexti en markaðurinn bjóði um þessar mundir, samanber fyrrnefnt hámark á ávöxtunarkröfu RIKB 11.

„Eftir útboðið á RIKB 11 í dag virðist ríkissjóður hafa viljað standa við yfirlýsingar um útboð í mánuðinum án þess þó að þurfa í raun á afrakstri þess að halda. Áhugavert verður að fylgjast með þróun kröfunnar næsta mánuðinn með hliðsjón af þessu,“ segir í Hagsjá.