Hagvöxtur mældist 1,9% í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er í takti við væntingar enda hefur hægagangur einkennt efnahagslífið vestanhafs frá hruni. AP-fréttastofan hefur upp úr gögnum bandaríska viðsiptaráðuneytisins í dag að uppgangur í fjárfestingum fyrirtækja hafi verið upp á móti samdrætti í einkaneyslu. Gert er ráð fyrir því að hagvöxtur verði á svipuðu róli út árið þar sem hagvöxtur vestra er mjög neysludrifinn.

AP-fréttastofan bendir á að 1,9% hagvöxtur dugi ekki til að vinna bug á miklu atvinnuleysi sem hefur plagað Bandaríkjamenn sem víðar. Atvinnuleysi mælist nú 8,2% í Bandaríkjunum og hefur almenningur haldið að sér höndum. Af þeim sökum er ekki gert ráð fyrir að neysla muni aukast á næstunni og hagvöxtur haldast á þessu róli út árið.