Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, gagnrýndi Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra í setningarávarpi á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun.

„Uppi er ágreiningur sambandsins við ráðherra húsnæðismála. Sambandið hefur gert athugasemd við að eiga ekki fulltrúa í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Allir eiga að vita að húsnæðismálin eru að stórum hluta á  ábyrgð sveitarfélaganna,“ sagði Halldór.

Hann benti á að Sambandið væri lögformlegur samskiptaaðili við ríki og Alþingi um málefni er varða sveitarstjórnarstigið. Því væri afar mikilvægt að sambandið eigi fulltrúa í nefndum sem fjalla um verkefni og skyldur sveitarfélaga og komi strax á undirbúningsstigi að mótun tillagna sem geta haft áhrif á fjárhag sveitarfélaga.

„Það er algjör nýlunda af hálfu ráðherra húsnæðismála að halda sveitarfélögunum frá starfi nefnda sem fjalla um framtíðarstefnu í  húsnæðismálum. Stjórn sambandsins leggur því þunga áherslu á að ráðherra endurskoði afstöðu sína í þessu máli og taki upp þau samskipti við fulltrúa sveitarfélaga á sviði húsnæðismála sem verða að teljast eðlileg m.t.t. til verkefna og skyldna ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði,“ segir Halldór Halldórsson.