*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 4. desember 2020 10:20

Hámarkinu var náð í september

HMS segir toppi fasteignaviðskipta hafa verið náð í september. Keypt fyrir ríflega 76 milljarða sem sló út met frá 2007.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt skammtímahagvísi hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var toppnum á fasteignaviðskiptum náð í september, en hagvísirinn mælir hversu margar íbúðir eru teknar úr sölu á hverjum tíma af vefsíðunni fasteignir.is.

Heildarupphæð útgefinna kaupsamninga sló jafnframt met í september eða 76,3 milljarðar króna, en þar áður hafði metupphæðin verið í 70,6 milljarðar í júlí 2007, þá miðað við verðlag 2020.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun nóvember stefndi í að september myndi slá út fyrra meti í fjölda kaupsamninga frá árinu 2007, sem var í júlí síðastliðnum. Ef hins vegar er horft á fjölda undirritaðra kaupsamninga virtist október hafa farið fram úr september, en þá hafði fasteignaverð hækkað um nærri 8% frá því að faraldurinn hófst.

HMS segir út frá birtingartölunum að fasteignamarkaðurinn hafi aðeins farið að róast eftir september, þó nóvember hafi verið líflegri en október á höfuðborgarsvæðinu, því færri íbúðir voru teknir þá úr birtingu í heildina heldur en í september.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins virðist fjöldi kaupsamninga þó ætla að slá met í nóvember á meðan fjöldinn hefur dregist verulega saman annars staðar á landsbyggðinni.