Landsliðshetjan Dagur Sigurðsson, handboltaþjálfari þýska úrvaldsdeildarliðsins Füchse Berlin, er á meðal væntanlegra kaupenda að verslunum og verkstæði Bílanausts af N1. Dagur var á meðal stofnenda Kex Hostel. Hann er bróðir Lárusar Blöndal Sigurðssonar, sem fer fyrir hópi fjárfesta sem hafa undirritað samning um kaup á fyrirtækinu. Kaupin eru háð samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Ef allt gengur eftir munu fjölskyldur Lárusar og Dags kaupa minnihluta í Bílanausti á móti félaginu Sundagarðar ehf.

Eigendur Sundagarða eru Gunnar Gíslason, fyrrverandi stjórnarmaður í SPRON, og fjölskylda hans. Félagið átti árið 2011 m.a. hlutabréf í CCP, Dohop, Mata og Valiant Petroleum, sem í fyrravetur fékk ásamt fleiri félögum sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, sagði í samtali við vb.is í morgun að ekki hafi staðið til að selja Bílanaust þegar rekstur N1 var stokkaður upp í fyrravetur. Þegar Bílanaust hafi öðlast sjálfstætt líf utan N1 um áramótin hafi fjárfestar viðrað áhuga á að kaupa fyrirtækið.

Bílanaust
Bílanaust
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)