„Þetta er kolrangt,“ segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans. Hann vísar því á bug að Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, hafi í gær fengið greiddar 350 milljónir króna úr þrotabúi Landsbankans á sama tíma og 432 milljarðar króna flæddu úr sjóðum búsins til þeirra sem áttu samþykktar forgangskröfur. Forgangskröfurnar eru að mestu það sem í daglegu tali nefnist Icesave-skuld.

Á forsíðu Morgunblaðsins í morgun var greint frá því að Hannes hafi átt 1,1 milljarð krón innstæðu hjá gamla Landsbankanum þegar hann féll og séu milljónirnar 350 þriðjungur af því, sem er jafn hátt hlutfall og greitt var niður af Icesave-skuldinni.

Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Landsbankans lýsti Hannes kröfu í búið á sínum tíma. Hún var hins vegar ekki samþykkt sem slík og viðbúið að mál hans fari dómstólaleiðina eins og fleiri slík mál. Þar til niðurstaða liggur fyrir skilanefndin lagt upphæðina inn á geymslureikning.

„Við búumst við að vinna málið,“ segir Páll og reiknar ekki með að Hannes fái peninginn sem hann gerir kröfu um.