„Ég veit ekki til þess að ég eigi verri sögu en margir aðrir,“ segir Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group. Eins og VB.is greindi frá á miðvikudag stýrir hann í dag fyrirtækinu NextCode Health, sprotafyrirtæki úr Íslenskri erfðagreiningu. Hannes Smárason var aðstoðarforstjóri ÍE á árunum 1996 til 2004 en varð forstjóri FL Group haustið 2005. Eftir umfangsmiklar fjárfestingar FL Group hætti hann skyndilega sem forstjóri rétt fyrir jólin 2007. FL Group hafði þá farið illa út úr kaupum á stórum hlutum í AMR, móðurfélagi bandaríska flugfélagsins American Airlines, Commerzbank og fjárfestingum í fleiri verkefnum. FL Group setti Íslandsmet undir stjórn Hannesar árið 2007 þegar það tapaði tæpum 70 milljörðum króna árið 2007.

Hannes segir í samtali við Fréttablaðið í telja að saga hans í viðskiptum hér á landi fyrir hrun ekki valda því að honum sé ekki treystandi til að stýra fyrirtæki.

„Já, já, ég held að hún gefi alveg tilefni til þess. Ég veit ekki til þess að ég eigi verri sögu en margir aðrir. Auðvitað var ég virkur þátttakandi í íslensku viðskiptalífi í mörg ár og áberandi sem slíkur. Klárlega var margt af því sem þar viðgekkst eitthvað sem menn myndu ekki endilega endurtaka, en engu að síður voru menn ósköp einfaldlega að vinna eftir þeim lögum og reglum sem giltu á þeim tíma og ég tel mig hafa haldið mig algjörlega innan þeirra marka, þannig að það er svo sem ekkert í því sem ætti að vera því til fyrirstöðu.“

Hannes viðurkennir að menn hafi gengið of hratt um gleðinnar dyr í góðærinu og hefðu átt að vanda sig betur.

„Hins vegar er þetta alltaf þannig að menn geta gert mistök, en mistök og lögbrot eru ekki sami hluturinn og það er lykilatriði [...] Ég veit ekki til þess að ég hafi brotið nein lög á einum eða neinum stað – þess vegna kæmi það mér á óvart. Ég hef ekki gert neitt rangt í þeim viðskiptum sem ég hef stundað, ég hef þvert á móti reynt að haga hlutunum þannig að sem flest sé uppi á borðinu,“ segir Hannes.