Forsætis- og fjármálaráðherrar Grikklands, þeir Alexis Tsipras og Yanis Varoufakis, hafa verið í framlínunni í viðræðum grískra stjórnvalda við alþjóðlega lánardrottna ríkisins, en á bak við þá eru nokkrir hugmyndafræðilegir harðlínumenn sem virðast einbeittir í að nýta það tækifæri sem gefist hefur með stjórnarsetunni til að ýta Grikklandi til vinstri. Einn þeirra er Nikos Voutsis.

Nikos Voutsis er innanríkisráðherra ríkisstjórnarinnar og hefur yfirráð yfir hundruðum þúsunda opinberra starfsmanna. Það var aðeins skömmu eftir stjórnarskiptin sem hann sneri við mörgum þeim breytingum sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði gert að kröfu lánardrottnanna. Hefur hann t.d. hætt við umbætur í kjarakerfi opinberra starfsmanna, lyft ráðningarbanni og hætt við innleiðingu á matskerfi fyrir opinbera starfsmenn. Þá vill hann stofna á ný lögreglusveitir einstakra borga, en þær voru leystar upp vegna vanhæfni og spillingar.

Hann hefur ekki aðeins komið við kaunin á lánardrottnunum, heldur hafa margir Grikkir áhyggjur af áformum hans um að breyta refsilöggjöf og fangelsiskerfinu. Vill hann t.d. leggja niður sérstök fangelsi fyrir hryðjuverkamenn og hættulega glæpamenn og samkvæmt frumvarpinu gæti Savvas Xiros, meðlimur í hinum alræmdu hryðjuverkasamtökum 17. nóvember, afplánað fimmfaldan lífstíðardóm heima hjá sér.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .