Hagnaður HB Granda á árinu 2015 var 6,2 milljarðar króna, en var fimm milljarðar króna árið áður. Hagnaður félagsins jókst því um 1,2 milljarða milli ára, eða um 24%.

Rekstrartekjur félagsins námu 31 milljarði króna, en þær voru 30 milljarðar árið á undan. EBITDA ársins 2015 var 7,5 milljarðar króna. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru jákvæð um 364 milljónir króna, en voru jákvæð um 616 milljónir árið áður.

Heildareignir félagsins námu 55,3 milljörðum króna í árslok 2015. Þar af voru fastafjármunir 44,7 milljarðar og veltufjármunir 10,5 milljarðar króna.  Eigið fé nam 34,3 milljörðum og var eiginfjárhlutfall 62%, sem er lækkun um tvö prósentustig milli ára. Heildarskuldir félagsins voru í árslok 20,9 milljarðar króna.

HB Grandi hf. gerði út 9 fiskiskip í árslok.  Á árinu var lokið við smíði tveggja uppsjávarskipa.  Smíði þriggja ísfisktogara fer nú fram í Tyrklandi, en gert er ráð fyrir að fyrsta skipið verði afhent næsta haust. Árið 2015 var afli skipa félagsins 48 þúsund tonn af botnfiski og 128 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2016 verði vegna rekstrarársins 2015 greiddar 1,70 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða um þrír milljarðar íslenskra króna, eða 4,1% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2015. Tillaga stjórnar gerir ráð fyrir að arðurinn verði greiddur 29. apríl 2016.