Samkeppnisyfirvöld hafa hafið rannsókn á hinum 2 milljarða punda jarðarfaramarkaði í Bretlandi og kanna nú hvort almenningur hafi verið ofrukkaður þegar þeir leggja sína nánustu til hinstu hvílu. Hagnaður fyrirtækja sem sinna útfaraþjónustu hefur vaxið verulega á undanförnum árum og meðalútfararkosnaður hefur meira en tvöfaldast síðan 2004.

Kannað verður hvort verðhækkanir hafi verið óeðlilega miklar og örar á síðustu árum auk þess sem skoðað verður sérstaklega hvort þær upplýsingar sem fyrirtækin hafi látið viðskiptavinum sínum í té um verð og þjónustu séu almennt of ruglingslegar til að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hagkvæmasta kostinn.

Miklar verðhækkanir á bálförum verða einnig skoðaðar en sífellt stærri hluti viðskiptavina kýs bálfarir fremur en jarðafarir. Samkeppnisyfirvöld telja nauðsynlegt að veita þessum markaði aukið aðhald þar sem syrgjandi viðskiptavinir fyrirtækja á sviði útfararþjónustu eru í afar viðkvæmri stöðu.

Fjármálaráðuneytið hefur einnig hafið sjálfstæða skoðun á markaði með fyrirframgreiddar jarðafarir en um 1,3 milljónir Breta hafa gert slíka samninga til að bregðast við slæmum viðskiptaháttum. Hlutabrét í Dignity, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum Bretlands á sviði útfaraþjónustu, hafa fallið um 11% í kjölfar frétta af rannsókn samkeppnisyfirvalda og fjármálaráðuneytisins en aukin samkeppni og vaxandi gagnrýni á viðskiptamódel fyrirtækisins gæti átt þar hlut að máli.