Þingmaður Framsóknarflokksins segist áhyggjufullur yfir því að salan á Kaupási auki fákeppni á matvörumarkaði. Sem kunnugt er rekur Kaupás meðal annars matvöruverslanirnar Nóatún og Krónuna. Sjóður rekinn af Stefni, dótturfélagi Arion banka, og nokkrir einstaklingar hyggjast kaupa fyrirtækið af Jóni Helga Guðmundssyni.

„Af fréttum að dæma er kaupandinn andlitslaust fyrirtæki í eigu nokkurra athafnamanna ásamt því að vera í eigu sjóðs, sem er í eigu sjóðs, sem er í eigu lífeyrissjóðanna.  Hæstivrtur forseti ég er mjög hugsi yfir þessari þróun. Ekki síst vegna þess að þessi sama uppskrift af eignarhaldi virðist hafa verið notuð þegar stærsta verslunarkeðja var seld fyrir nokkru síðan,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag.

Hann segist hafa vonast til þess að salan á Högum yrði til þess að verð til neytenda myndi  lækka. Það virðist ekki hafa gerst. „Heldur þvert á móti,“ segir Þorsteinn. „Þetta kristallast meðal annars í því að þessi umrædda stærsta verslunarkeðja hagnaðist um þrjá milljarða í fyrra. Það hefur ekki farið mikið fyrir umræðum um þennan hagnað hér í þessum sal. Samt er hann sóttur beint í vasa neytenda, beint í vasa heimilanna í landinu,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn sagðist óttast að með þessum viðskiptum sé stefnt beint að meiri samþjöppun á þessum markaði og hafi hún verið ærin fyrir.