Mark Zuckerberg, forstjóri og einn stofnenda Facebook, fékk í fyrra 3,3 milljarða dala, jafnvirði um 370 milljarða íslenskra króna, með því að nýta sér kauprétti sem hann er með á hlutabréfum fyrirtækisins. Hann hefur nú fullnýtt sér kaupréttarákvæðin.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir í umfjöllun sinni um fjármál Zuckerberg að hann hafi haft 1 Bandaríkjadal, jafnvirði 112 íslenskra króna, í grunnlaun í fyrra. Það minna en tíkall á mánuði. Launin eru álíka lág og aðrir forkólfar í tæknigeiranum vestanhafs hafa haft í gegnum tíðina. Þar á meðal eru þeir Larry Page, forstjóri og stofnandi Google, og Steve Jobs, fyrrverandi forstjóri Apple. Kaupréttir og hlunnindi ýmis konar vógu hins vegar upp á móti fremur lágum launum. Talið er til að árið 2012 námu aukasporslurnar 1,99 milljónum dala. Í fyrra voru þær hins vegar komnar niður í rétt rúmlega 653 þúsund dali.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að Zuckerberg hafi gengið á sjóði sína. Þar á meðal þurfti hann að gefa 60 milljónir hlutabréfa í Facebook til að geta greitt skattinum sitt. Þá hefur það kostað sitt að ferðast með einkaþotum.

Zuckerber á enn 426,3 milljónir hlutabréfa í Facebook. Markaðsverðmæti bréfanna nemur 25,7 milljörðum dala.