Alvotech hefur hafið klíníska rannsókn á AVT06 (aflibercept), fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Eylea sem er notað til meðferðar við augnsjúkdómum sem geta leitt til sjóntaps eða blindu, svo sem votri augnbotnahrörnun, sjóndepilsbjúgi og sjónukvilla af völdum sykursýki. Á síðasta ári námu tekjur af sölu Eylea um 130 milljörðum króna, samkvæmt gögnum frá Evaluate Pharma. Þetta kemur fram í tilkynningu Alvotech.

Markmið rannsóknarinnar, sem ber heitið Alvoeye, er að bera saman klíníska virkni, öryggi og ónæmingarverkun AVT06 og Eylea í sjúklingum með aldurstengda vota augnbotnahrörnun (AMD). Alvoeye er fjölsetra, tvíblinduð, slembiröðuð rannsókn til að bera saman klíníska virkni viðmiðunarlyfsins og AVT06.

Gert er ráð fyrir að í rannsókninni taki um það bil 444 einstaklingar þátt á heimsvísu. Meginendapunktur er breyting á leiðréttri sjónskerpu frá grunnmælingu fram í 8. viku.

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech:

„Við erum afar ánægð með framgang lyfjaverkefna okkar, sem sýnir hvernig fullkomin aðstaða til þróunar og framleiðslu gerir okkur kleift að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum áætlunum á sviði líftæknihliðstæðulyfja.“

Joseph McClellan, rannsóknarstjóri:

„Upphaf klínískra rannsókna er mikilvægt skref í þróun AVT06 og sýnir árangur Alvotech í þróun líftæknilyfjahliðstæða við mörgum tegundum sjúkdóma, sem getur stuðlað að bættum hag fólks um allan heim.“