*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 1. október 2018 13:55

Heimili á jafnréttisgrundvelli

Almenna leigufélagið undirbýr nú skráningu á markað, en eftir mikinn vöxtu síðustu ára er stærðin nú orðin hagkvæm.

Höskuldur Marselíusarson
María Björk Einarsdóttir er framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins.
Haraldur Guðjónsson

María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins, segir að eftir mikinn vöxt félagsins frá því í lok árs 2016 og í byrjun árs 2017 hafi félagið nú náð góðri stærð.

„Við erum með tæplega 1.300 íbúðir, sem nema um 111.500 fermetrum, svo við erum komin með mjög gott eignasafn af hagkvæmri stærðargráðu. Þess vegna erum við núna að einblína á að ná enn betri fjármögnunarkjörum í aðdraganda skráningar félagsins á markað á næsta ári. Það sem af er árinu erum við búin að endurfjármagna yfir tíu milljarða króna,“ segir María Björk um félagið sem stofnað var árið 2014.

„Þá var það umsýslufélag fjárfesta sem átti íbúðarhúsnæði fyrir, en árið 2016 kaupir það nokkur eignasöfn frá sjóðum Gamma, um 400 íbúðir, og samhliða því kaupir félagið leigufélagið Klett sem Íbúðalánasjóður átti, en það voru um 450 íbúðir. Í fyrra keyptum við svo BK Eignir sem var eignasafn sem taldi 360 íbúðir, að stórum hluta staðsettar á Suðurnesjum. Loks bættum við á þessu ári við hótelíbúðum í miðbænum en það hefur alltaf verið áhersla félagsins að fjárfesta í miðbæ Reykjavíkur.“

Starfsmenn Almenna leigufélagsins, sem nánast eingöngu hefur fjárfest í íbúðarhúsnæði, eru um 15 talsins. „Við höfum eytt síðasta árinu í að ná fram samlegð og stærðarhagkvæmni í rekstri eftir að hafa vaxið svona hratt. Við höfum verið að þróa og vinna með ýmsa ferla til þess að lágmarka umstangið í kringum eignaumsýsluna en til þess höfum við verið verið að fjárfesta í ýmiss konar tæknilausnum,“ segir María Björk.

„Við höfum til dæmis reynt að hafa biðtímann sem allra stystan við að fá iðnaðarmenn í heimsókn ef eitthvað kemur upp á. Á hverjum degi eru menn í fullri vinnu sem keyra um til þess að sinna ýmiss konar beiðnum frá leigjendum.“

María Björk tekur fram að leigjendur félagsins hafi frjálst val til að hengja upp hillur eða myndir og annað.  „Við viljum að fólk geti útbúið heimili sín eins og því sýnist. Maður heyrir oft að svona sé bannað í mörgum leiguíbúðum en við höfum heimilað það, svo lengi sem gengið sé frá því aftur. Við getum einnig boðið fólki að okkar menn bæði sjái um uppsetningu og frágang í lok leigutímans, það er alltaf samkomulagsatriði,“ segir María Björk sem segir verkefnin mjög fjölbreytt en það sama megi segja um leigjendahópinn.

„Við erum með mikið af fjölskyldufóki, bæði íslensku en svo mikið af fólki af erlendu bergi brotnu. Við höfum meira að segja fundið fyrir því að fólk sem kannski hefur ekki búið lengi hér á landi leitar til okkar því það hefur lent í ákveðnum fordómum á leigumarkaðnum. Við erum öfugt við almenna leigumarkaðinn með mjög staðlaða ferla í því hvernig lagt er mat á umsóknir leigjenda og algert jafnrétti ríkt í því.“

María Björk segir félagið vilja vera leiðandi í því að byggja upp fagmennsku á leigumarkaði. „Við teljum það mjög jákvæða þróun að það séu að koma faglegir leigusalar inn á markaðinn sem hafa þetta sem aðalstarfsemi til langs tíma. Því auðvitað þekkjum við sögur af leigjendum sem eru að leigja af einstaklingum og hafa kannski þurft að flytja margoft, á milli hverfa, því íbúðirnar eru seldar,“ segir María Björk.

Ákveðnar eignir fyrir gæludýr

María Björk Einarsdóttir, segir að félagið vilji gera sem mest til að jafna aðstöðumun milli þeirra sem leigja og þeirra sem eiga sitt húsnæði.

„Við höfum tekið eftir því að leigumarkaðurinn er mjög óvinveittur fólki sem vill eiga gæludýr, svo við erum að undirbúa útfærslur á því hvernig við getum opnað meira á gæludýrahald í húsnæði okkar,“ segir María. „Vegna þess að við erum bundin af húsreglum, meðeigendum og öðrum nágrönnum yrði mögulega um að ræða einhverjar ákveðnar eignir.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.