Vísbendingar eru um að viðsnúningur sé að verða í heimsbúskapnum. Búist er við að heimshagvöxtur aukist á ný á næsta ári en í ár stefnir í minnsta hagvöxt frá heimskreppunni fyrir áratug. WSJ greinir frá .

Efnahagsumsvif í Bandaríkjunum hafa ekki verið meiri í fimm mánuði og gögn frá Kína benda til aukins vaxtarhraða í framleiðslu og neyslu í nóvember. Vöxtur iðnframleiðslu jókst úr 4,7% í 6,2% milli mánaða í Kína og velta í smásölu úr 7,2% í 8% milli mánaða. UBS og Oxford Economics hækkuðu hagvaxtarspár sínar fyrir Kína úr 5,7% í 6% fyrir árið 2020 eftir að greint var frá hinum auknu efnahagsumsvifum.

Þá þykir jákvætt að Kínverjar og Bandaríkjamenn náð saman um að draga úr viðskiptaþvingunum hvert gegn öðru. Bandaríski seðlabankinn hefur ákveðið að bíða með frekari vaxtalækkanir þar sem hagkerfið sé að ná jafnvægi.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir 3% heimshagvexti í ár en 3,4% á næsta ári. Kristalina Georgieva, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, vara þó við því að áhættan í spánni sé fremur niður á við.

Vandi evrusvæðisins heldur áfram

Enn er þó hægagangur í hagkerfi evrusvæðisins. Iðnframleiðsla veldur sér í lagi vonbrigðum en vöxtur í þjónustu þykir bæta að hluta upp fyrir það. Vísitala IHS Markit meðal innkaupastjóra, sem mælir efnahagsumsvif í einkageiranum, hefur ekki verið lægri á þessum ársfjórðungi frá árinu 2013. Evrópski seðlabankinn lækkaði hagvagstarspaá sína á ný fyrir hagvöxt næsta árs í 1,1% innan evru svæðisins, en hagvaxtarspá ársins 2020 hefur verið lækkuð ítrekað undanfarið eitt og hálft ár. Christine Lagarde, seðlabankastjóri Evrópska seðlabankans segir þó ekki von á sérstökum örfunaraðgerðum á ný og segir vísbendingar um að hagkerfið sé að ná jafnvægi.