Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segir að komi til þess að ríkið bjargi fjárfestingalánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac verði að gera það með þeim hætti að hluthafar sjóðanna græði ekki á því.

Samkvæmt frétt Reuters gætu bandarísk yfirvöld gripið til aðgerða strax á morgun. Heimild Reuters fyrir þessu er Wall Street Journal (WSJ), en talsmaður fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna sagði greinina vera byggða á litlum og ónákvæmum heimildum. Hann neitaði hins vegar að tjá sig um hvort farið væri með rangt mál í henni.

Samkvæmt frétt WSJ vill Paulson ekki að hluthafar Freddie Mac og Fannie Mae græði á aðgerðum stjórnvalda þar sem það gæti ýtt undir rangt hugarfar, menn gætu byrjað að taka of mikla áhættu telji þeir sig geta treyst því að stjórnvöld bjargi þeim.

Paulson sagði á föstudag að yfirvöld hefðu engin plön uppi um að þjóðnýta Fannie og Freddie. Talsmenn Fannie og Freddia segja sjóðina hafa yfir nægu fjármagni að ráða til að halda út þá dýfu sem bandarískur húsnæðismarkaður hefur nú tekið.