*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 4. júní 2018 11:48

Herbergjanýting ekki verri síðan 2011

Herbergjanýting á hótelum á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið verri síðan árið 2011.

Ritstjórn
Hótelherbergjum fjölgar en á sama tíma fækkar gistinóttum á hótelum
Haraldur Guðjónsson

Herbergjanýting á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í apríl nam 65,7%. Nýtingin hefur ekki mælst minni í apríl síðan árið 2011. Nýtingin á sama tíma á síðasta ári var 79,7% á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagfræðideild Landsbankans

Herbergjanýting á fyrstu fjórum mánuðum ársins hefur verið verri en á sömu tímapunktum í fyrra. Fara þarf aftur til áranna 2015 og 2016 til að finna verri herbergjanýtingu en á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það eru því nokkur tíðindi að þurfa fari aftur til ársins 2011 til að finna verri nýtingu í apríl mánuði.

Á öðrum landsvæðum var nýtingin nú í apríl einnig verri en hún hefur verið á allra síðustu árum. Þó þarf ekki að fara jafn langt aftur eins og í tilfelli höfuðborgarsvæðisins. Skemmst þurfti að fara aftur hjá Suðurnesjum, en þar var nýtingin einungis betri á síðasta ári. Fara þurfti aftur til ársins 2016 til að finna verri nýtingu á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Á Austurlandi og Norðurlandi þarf að fara aftur til ársins 2015 til að finna verri nýtingu. 

Hótelherbergjum fjölgar en gistinóttum fækkar

Hótelherbergjum fjölgaði um 9,4% nú í apríl. Á sama tíma fækkaði gistinóttum á hótelum um 3,8%. Gistinóttum bæði innlendra og erlendra ferðamanna fækkaði á milli ára. Gistinóttum erlendra ferðamanna fækkaði um 3,7% en um 4,8% hjá innlendum ferðamönnum. Aprímánuður var fimmti mánuðurinn í röð þar sem gistinóttum innlendra ferðamanna fækkaði á 12 mánaða grundvelli. Helsta ástæðan fyrir þessu eru tíðari utanlandsferðir Íslendinga og hafa landsmenn því fært frí sín í auknum mæli til útlanda.

Stikkorð: Landsbankinn Hótel ferðamenn