*

fimmtudagur, 4. mars 2021
Fólk 15. desember 2019 19:01

Heyrði aldrei „þetta reddast“

Benedikt Hauksson, nýr ráðgjafi hjá Aton.JL, starfaði hjá stórum auglýsingastofum í London með mjög fastmótuðum ferlum.

Höskuldur Marselíusarson
Matarmenning og hjólreiðar eru aðaláhugamál Benedikts Haukssonar og vill hann sameina þau með hjólaferð í Suður-Evrópu. Hann vann lengi í London þar sem hlutunum var ekki reddað heldur unnið eitt og hálft ár fram í tímann.
Gígja Einars

„Við aðstoðum fyrirtæki sem vilja hagræða og einfalda reksturinn á sama tíma og þau veita viðskiptavinum sínum betri upplifun af vöru og þjónustu með stafrænum lausnum. Hérna get ég sameinað markaðsreynsluna og það sem ég hef bætt við mig í stafrænni umbreytingu og stjórnun," segir Benedikt Hauksson, nýr ráðgjafi hjá samskiptafélaginu Aton.JL.

„Á sínum tíma var ég svo heppin að komast inn í nám í auglýsingagerð hjá Listaháskóla Lundúna, sem er ein besta leiðin til að fá starf á helstu auglýsingastofum heims sem eru þar í borg. Ég lærði þó hvað mest á starfsnáminu sem maður komst í á auglýsingastofum bæði á sumrin og með skóla. Ég held svo að reynslan af stórum auglýsingastofum eins og BBH og M&C Saatchi í London hafi að lokum tryggt mér starf eftir útskrift sem var ekki sjálfgefið í miðju efnahagshruninu, Þar vann ég að markaðsherferðum fyrir mörg stærstu vörumerki heims eins og Adidas, Budweiser, Guardian blaðið og Kellogg´s."

Síðustu ár hefur Benedikt starfað hjá Kolibri, Brandenburg og Döðlum hérna á Íslandi. „Á sínum tíma var ekkert í kortunum hjá mér að flytja heim, en þegar vinir mínir ákváðu að opna auglýsingastofu gat ég ekki sleppt tækifærinu að fá að vera með í því. Úti í London var ég að vinna á 250 til 300 manna stofu, þar sem unnið er frá 7 á morgnana til 9 á kvöldin alla virka daga og oft um helgar, og allir ferlar fastmótaðir og herferðir unnar eitt og hálft ár fram í tímann. Þarna heyrði ég aldrei setninguna „þetta reddast", en þótt það hafi verið góður skóli var það mikið álag og því eins og 20 kílóum væri létt af öxlunum þegar ég kom hérna heim," segir Benedikt.

„Ef ég hef litið eitthvað stórt á mig þegar ég kom heim var mér kippt niður á jörðina strax á fyrsta degi þegar ég var sendur til að aðstoða við gerð auglýsingar með Helga Björns í aðalhlutverki og mér rétt regnhlíf og ég beðinn um að passa að „Holy B" blotnaði ekki í tökunum. Í auglýsingabransanum hérna á Íslandi eru menn meira á jafningagrundvelli og allir ganga í sömu verk."

Benedikt er í sambúð með Þorgerði Þórhallsdóttur myndlistarmanni en saman eiga þau þriggja og hálfs árs gamlan strák. „Fátt annað kemst að þessa dagana nema hann. Sjálfur lít ég á mig sem mikinn hjólreiðamann en þeir sem þekkja mig betur segja einu ástæðuna fyrir að ég hjóli sé svo ég bæti ekki of mikið á mig því aðaláhugamálið mitt er matur, matargerð og matarmenning. Mig dreymir um að sameina þetta tvennt með hjólaferð um Suður-Frakkland og Ítalíu þar sem ég gæti lært að gera pasta hjá ítalskri ömmu einhvers staðar."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.