Hin árlega bjórhátíð verður haldin á Hólum næstkomandi laugardag. Bjórsetur Íslands á Hólum stendur fyrir hátíðinni og er þetta fjórða árið í röð sem bjórhátíðin er haldin.

Allir helstu framleiðendur bjórs á Íslandi munu kynna vörur sínar á hátíðinni en Vífilfell, Einstök, Ölgerðin, Kaldi, Steðji og Gæðingur hafa t.a.m. boðað komu sína. Þá verður Bjórsetur Íslands brugghús, sem framleiðir sinn eigin bjór og selur á Hólum, að sjálfsögðu með sinn bjór á svæðinu.

Gestir hátíðarinnar velja síðan besta bjór hátíðarinnar, auk þess sem valið er á milli bása framleiðenda.

Ekkert fyllerí

Guðmundur Björn Eyþórsson, einn skipuleggjenda, segir ávallt góðan anda ríkja á hátíðinni. Hann segir skipta máli að hátíðin sé haldin á Hólum, en ekki í Reykjavík eða á Akureyri. „Hér er mikil samheldni. Hér gista allir á tjaldsvæði og því myndast ákveðin stemmning sem myndi líklega ekki myndast annars staðar.“ Hann segir að þátttakendur hátíðarinnar séu þó alls ekki bara heimamenn. Þvert á móti komi bjóráhugamenn víðs vegar að á hátíðina.

Þrátt fyrir að megin þema hátíðarinnar sé bjór, þá segir Guðmundur að ekki sé um fyllerí að ræða. „Það fallegasta við þessa hátíð er að það er aldrei fyllerí eða læti. Hér er fólk bara að skemmta sér og hafa gaman.“