Hlutabréf í Japan hríðlækkuðu strax við opnun markaða í kvöld en dagurinn í dag (mánudagur) er fyrsti viðskiptadagurinn eftir að jarðskjálfti skók Japan. Jarðskjálftinn skall á rétt fyrir lokun markaða á föstudag (föstudagsmorgni að íslenskum tíma).

Nikkei vísitalan lækkaði um 5% strax við opnun markaða en Masaaki Shirakawa, seðlabankastjóri Japan, tilkynnti fyrir opnun markaða að seðlabankinn þar í landi þyrfti að öllum líkindum að spýta um 7 þúsund milljörðum japanskra jena (um 85 milljörðum Bandaríkjadala) inn í hagkerfið til að fá það í gang á ný eftir jarðskjálftann og þær hörmungar sem honum fylgdu.

Strax á föstudag tilkynnti japanski seðlabankinn að hann myndi nýta alla möguleika til að halda hagkerfinu gangandi.

Lækkunin kemur hvorki viðmælendum Reuters eða Bloomberg á óvart enda afleiðingar skjálftans ófyrirséðar. Fréttavefur BBC greinir hins vegar frá því að í ljósi virkni hlutabréfamarkaða í Ástralíu og Nýja Sjálandi eftir náttúruhamfarir í löndunum tveimur megi búast við því að hlutabréfamarkaðurinn taki við sér.