Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag og voru það helst námu- og orkufyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins en einhverjir bankar og fjármálafyrirtæki náðu að einhverju leyti að klifra til baka eftir að hafa lækkað töluvert í gær að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þannig hækkaði námufyrirtækið Xstrata um 5,7% og Total um 3,6% á meðan olíufélögin BP og Shell hækkuðu um 2 og 1,3%.

Hvað bankana varðar hækkaði Royal Bank of Scotland um 0,4% og UBS um 2% á meðan Barclays lækkaði um 2,9%. Flestir stóru bankana í Evrópu voru á þessu bili að sögn Reuters.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 0,7% í dag en hafði í gær lækkað um 2,4%.

Í Lundúnum og í Amsterdam hækkuðu FTSE 100 og AEX vísitölurnar um 1% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,6%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,8% en í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,2%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,1%, í Osló hækkaði OBX vísitalan  um 1,9% og í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan  um 0,4%.