Almennu hlutafjárútboði Exista lauk í gær og alls óskuðu um 7.400 fjárfestar eftir að kaupa hluti fyrir um 42 milljarða, en í boði voru 65 milljónir hluta að söluvirði tæplega 1,4 milljarðar króna, segir í fréttatilkynningu.

?Vegna mikils áhuga á hlutafjárútboðinu munu fjárfestar fá úthlutað helmingi þeirrar fjárhæðar sem þeir óskuðu eftir en hver fjárfestir fær þó úthlutað að hámarki um 240 þúsund krónum. Úthlutun til almennra fjárfesta er samkvæmt reglum í skráningarlýsingu Exista," segir í tilkynningu frá Exista.

"Við erum bæði ánægð og þakklát yfir áhuga almennings á því að koma í hluthafahóp Exista. Góð þátttaka starfsmanna er einnig jákvæð og sýnir trú þeirra á framtíð félagsins. Á undanförnum vikum hefur fjöldi einstaklinga og fjárfesta bæst í hluthafahóp Exista og nú er það undir okkur komið að standa undir því trausti sem okkur er sýnt," sagði Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista."

Samhliða almenna hlutafjárútboðinu fór fram útboð til starfsmanna Exista og tengdra félaga þar sem þeim var boðið að kaupa 65 milljónir hluta í félaginu. Skráðu starfsmenn sig fyrir þeim öllum.

Í tilkynningunni segir að hlutafé Exista verður skráð í Kauphöll Íslands á föstudaginn 15. september 2006.

Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka hafði umsjón með hlutafjárútboðinu og skráningu í Kauphöll. Kaupþing banki var eigandi þess hlutafjár sem selt var í útboðinu