Írska ríkið hefur þjóðnýtt Anglo Irish Bank. Írski fjármálaráðherran, Brian Lenihan, sagði í gær að fyrirhugaður 1,5 milljarða evru stuðningur við bankann væri ekki lengur ,,viðeigandi” og að hann hygðist frekar taka það skref að þjóðnýta bankann að fullu.

Í umfjöllun Bloomberg um málið segir að írski bankinn bætist þar með við listann yfir þá evrópsku banka sem hafa verið þjóðnýttir á síðustu mánuðum, í kjölfar fjármálakreppunnar.

Í þeirri upptalningu nefnir Bloomberg m.a. þjóðnýtingu Glitnis, Landsbankans og Kaupþings í október sl.

Hluthafar Anglo Irish bankans, sem komu saman á fundi í Dublin í morgun, gagnrýndu stjórnendur og stjórn bankans harðlega og öskruðu: ,,Út, út, út."

Upphaflegur tilgangur fundarins var að fá samþykki hluthafa fyrir 1,5 milljarða evru stuðningi frá ríkinu.