Stjórn bandaríska tryggingarisans AIG er að skoða að fara í skaðabótamál á hendur ríkinu með hópi hluthafa félagsins sem horfði upp á verðmæti eignahluta sinna í félaginu verða að engu þegar ríkið bjargaði fyrirtækinu frá gjaldþroti fyrir að verða fimm árum. Hluthafar AIG telja aðstoðina brjóta í bága við bandarísku stjórnarskránna þar sem bannað er að ganga á eign annarra. Þeir krefjast 25 milljarða dala í skaðabætur.

AIG lenti í miklum fjárhagsvanda þegar kreppan skall á enda var fyrirtækið umfangsmikill milligönguaðili með svokölluð undirmálslán. Ríkið dældi fjármagni inn í reksturinn í skiptum fyrir hlutafé. Þegar yfir lauk hafði bandaríska ríkið lagt 182 milljarða dala, jafnvirði rúmra 23 þúsund milljarða íslenskra króna, til AIG og eignaðist við það 92% hlut í félaginu.

Samkvæmt umfjöllun CNBC -fréttastofunnar af málinu hyggst stjórn AIG funda um málið í dag og verður þá tekin ákvörðun um málið. Það var Maurice R. Greenberg, fyrrverandi forstjóri AIG og stór hluthafi í fyrirtækinu, sem höfðaði málið árið 2011 fyrir hönd fjölda annarra hluthafa.