Ákveðið hefur verið að færa 9,71% hlut hollenska eignarhaldsfélagsins Kjalar Invest B.V. í Kaupþingi banka hf. (71.883.352 hlutir), undir nýtt óstofnað félag í eigu sömu aðila. Hið nýja óstofnaða félag verður hollenskt eignarhaldsfélag, sem verður systurfélag Kjalar Invest B.V. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Jafnframt hefur verið ákveðið að færa 0,17% hlut Eglu hf. í Kaupþingi banka hf. (1.270.000 hlutir) yfir í sama óstofnaða félag. Gert er ráð fyrir að stofnun félagsins og yfirfærslan á hlutunum, samtals 9,88%, muni eiga sér stað á næstu dögum.

Hið nýja félag og Kjalar Invest B.V. verða bæði í 100% eigu Kjalar Holding B.V.

Kjalar Holding B.V. er 99,99% í eigu Eglu hf. og 0,01% í eigu Kjalars hf., en Egla hf. er 100% í eigu Kjalars hf. Kjalar hf. er að meirihluta í eigu Ólafs Ólafssonar. Áður en yfirfærslan á sér stað mun Egla hf. hins vegar verða 100% eigandi að Kjalar Holding B.V. með kaupum á 0,01% hlut Kjalars hf. Eftir yfirfærsluna verður hið nýja félag skráður eigandi bréfanna í hlutaskrá  Kaupþings banka hf. í stað Kjalar Invest B.V. og Eglu hf. Raunverulegt eignarhald á bréfunum mun hins vegar ekki hafa breyst þar sem hið nýja félag er í eigu sömu aðila.

Kjalar Invest B.V. og Egla hf. eru fjárhagslega tengd Hjörleifi Þór Jakobssyni, stjórnarmanni og fruminnherja í Kaupþingi banka hf., en hann er jafnframt framkvæmdastjóri Eglu hf. Hið nýja félag verður einnig fjárhagslega tengt Hjörleifi.

Eftir yfirfærsluna munu aðilar fjárhagslega tengdir Hjörleifi, eftir sem áður, eiga 73.162.179 hluti í Kaupþingi banka hf., eða 9,88%. Hjörleifur á 12.788 hluti í bankanum.