Hennes & Mauritz AB (H&M) tilkynnir að fyrsta H&M verslunin mun opna dyr sínar í Smáralind þann 26. ágúst 2017 næstkomandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá H&M.

Fyrsta H&M verslunin á Íslandi mun standa á tveimur hæðum og mun rýmið ná yfir 3.000 fermetra í verslunarmiðstöðinni Smáralind. „Við erum ótrúlega spennt yfir að því hve langt við erum komin með opnunina og hlökkum mikið til að bjóða viðskiptavini okkar velkomna þegar H&M opnar í Smáralind þann 26. ágúst næstkomandi” segir Filip Ekvall, svæðisstjóri fyrir H&M í Noregi og á Íslandi.

Fyrsta H&M verslunin á Íslandi verður staðsett í Smáralind, Hagasmára 1, 201 Kópavogi. Opnunartímar verslunarinnar eru mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og föstudaga 11:00-19:00, fimmtudaga 11:00-21:00, laugardaga 11:00-18:00 og sunnudaga 13:00-18:00.

Afhendingin tafðist

Viðskiptablaðið greindi nýverið frá því að afhendingin á H&M rýminu í Smáralind tafðist lítillega. Gert var ráð fyrir því að rýmið yrði skilað til H&M í júní en það gerðist ekki fyrr en um miðjan júlí. Þó virðast hlutirnir hafa vel gengið fyrir sér og H&M mun opna verslun sína í Smáralind í ágúst eins og ráðgert var.

H&M hyggst einnig  opna búð í Kringlunni í september að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Guðjón Auðunsson, forstjóri fasteignafélagsins Reita og stjórnarformaður Kringlunnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið félagið hafi nú þegar afhent bilið tilbúið til uppsetning til H&M samkvæmt samningi. Formlega afhendingin fór fram fyrr í júlí.

„Þetta er bara í höndum H&M núna. Það er ekkert að vanbúnaði okkar megin. Við erum á fullu að vinna í bilinu hliðina á þar sem að ný Next búð opnar, en við höfum ekki neinar nákvæmar upplýsingar hvenær þeir ætla að opna,“ bætir hann við.