Ný öryggislöggjöf tók gildi í Hong Kong um helgina sem yfirvöld segja að muni vernda borgina og tryggja stöðugleika. Lögin voru fyrst lögð fram árið 2020 og veitir uppfærða útgáfan kínverskum yfirvöldum meira yfirráð yfir Hong Kong.

Samkvæmt fréttaflutningi BBC eru fyrirtæki og fjárfestar hins vegar svartsýnir og óttast að lögin muni hafa neikvæð áhrif á hagkerfi sjálfstjórnarsvæðisins.

Hong Kong reynir nú að sannfæra heiminn um að borgin sé enn einn af miðpunktum fjármálaheimsins en dvínandi samskipti Kína við Bandaríkin hafa einnig haft mikil áhrif á erlenda fjárfestingu í landinu.

Einn starfsmaður kínversks ríkisbanka segir að bankinn hafi rekið 10% af vinnuafli sínu síðasta sumar og 5% voru látin fjúka í síðustu viku. „Viðskiptin hafa verið skelfileg undanfarin tvö ár og við höfum ekki undirritað neinn stóran samning.“

Hagkerfi Hong Kong hefur glímt við erfiða endurkomu eftir mótmælin árið 2019 og aðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldrinum. Færri fyrirtæki hafa verið að leigja skrifstofurými og standa margar verslanir tómar.

Fjöldi ferðamanna er ekki nema 60% af því sem hann var fyrir Covid og hefur verðmæti Hang Seng-vísitölunnar lækkað um 40% frá því 2019.

Indland tók fram úr Hong Kong í janúar sem fjórði stærsti hlutabréfamarkaður heims og stendur nú í harðri samkeppni við Singapúr meðan fyrirtæki horfa til annarra landa í Asíu.