*

mánudagur, 16. maí 2022
Fólk 14. september 2021 11:02

Hrefna Ösp stýrir Creditinfo á Íslandi

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi
Aðsend mynd

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi. Hún starfaði áður hjá Landsbankanum frá árinu 2010 þar sem hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra eignastýringar og miðlunar. Hrefna Ösp tekur við stöðunni af Brynju Baldursdóttur sem tók nýlega við starfi forstjóra Greiðslumiðlunar Íslands.

„Ég er sérstaklega spennt að ganga til liðs við Creditinfo. Ég hef fylgst með fyrirtækinu allt frá stofnun og verið viðskiptavinur og veit því að hjá Creditinfo starfar mjög öflugur hópur sem veitir framúrskarandi þjónustu með öflugum lausnum. Einnig er spennandi að komast í alþjóðlegt umhverfi en fyrirtækið er með starfsemi í fjórum heimsálfum. Fram undan eru fjölmörg tækifæri til áframhaldandi vaxtar svo sem vegna opnara bankaumhverfis og aukinna krafna um þekkingu á viðskiptavinum og uppruna fjármagns,“ er haft eftir Hrefnu Ösp í fréttatilkynningu.

Hrefna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með löggildingarpróf í verðbréfaviðskiptum. Hún lét af störfum hjá Landsbankanum í haust eftir að hafa verið þar frá árinu 2010. Áður starfaði Hrefna sem sjóðstjóri hjá Arev verðbréfafyrirtæki frá árinu 2007. Þá starfaði hún sem forstöðumaður skráningarsviðs og sérfræðingur á því sviði hjá Kauphöll Íslands frá 1998-2006. Áður gegndi Hrefna starfi forstöðumanns einstaklingsþjónustu hjá Fjárvangi og var starfsmaður á peningamálasviði Seðlabanka Íslands.

Hrefna hefur sömuleiðis setið í stjórnum fjölda fyrirtækja bæði á Íslandi og erlendis og er jafnframt einn stofnaðila IcelandSIF, óháðs vettvangs fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

„Við bjóðum Hrefnu Ösp hjartanlega velkomna til starfa og fögnum því mjög að fá hana til liðs við okkur. Hrefna býr yfir mikilli reynslu og skýrri sýn á virkni fjármálamarkaða sem verður Creditinfo mikill akkur í vegferð fyrirtækisins fram á veginn,“ segir Paul Randall, forstjóri Creditinfo Group.