Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 8.471 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2010 og voru skuldir 14.365 milljarðar króna. Erlendar eignir í lok síðasta árs námu 8.300 milljörðum króna og voru skuldir þá 14.595 milljarðar. Hrein staða þjóðarbúsins var því neikvæð um 5.895 milljarða í lok fyrsta ársfjórðungs samanborið við 6.295 milljarða í lok síðasta árs. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Seðlabankanum um erlenda stöðu þjóðarbúsins.

Ef frá eru taldar erlendar eignir innlánsstofnana sem eru í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 1.946 milljörðum króna og skuldir 3.028 milljörðum. Hrein staða að þeim undanskildum er því neikvæð um 1.082 milljarða króna. Upplýsingar um erlendar eignir og skuldir banka í slitameðferð eru enn takmarkaðar og eru því framreiknaðar eins og þær stóðu við þrot.

Í frétt Seðlabankans segir einnig að viðskiptajöfnuður hafi verið óhagstæður um 27 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi en var hagstæður um 1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra. Afgangur á vöruskiptum við útlönd var rúmlega 31 milljarður á fyrsta ársfjórðungi, en tæplega 4 millarða króna halli var á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var neikvæður um 52,5 milljarða. Halla á þáttatekjum má að miklum hluta rekja til innlánsstofnana í slitameðferð, ef jöfnuðurinn er reiknaður án áhrifa þeirra er hann neikvæður um 30 milljarða króna. Án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð er viðskiptajöfnuður neikvæður um 5 milljarða.