Hrunið ætlar lengi að þvælast fyrir fólki, sérstaklega stjórnmálamönnum og stjórnmálaáhugafólki á vinstrivængnum. Stefán Ólafsson ætlar seint að verða þreyttur á að kenna frjálshyggjunni um allt slæmt sem gerst hefur hér frá landnámi og nú síðast skrifaði Bjarkey Gunnarsdóttir, fulltrúi VG í fjárlaganefnd, grein í Fréttablaðið þar sem hún gagnrýnir þær áherslur sem hún telur sig sjá í drögum að fjárlögum. Hún er m.a. á móti breytingum á virðisaukaskattskerfinu og hækkunum á gjaldskrám. Setur hún út á að lækka eigi virðisaukaskatt á „lúxusvörur“ um 1%, en í þessu skattþrepi vasksins eru vörur eins og fatnaður. .„Þessari fyrirhrunspólitík verður ekki tekið þegjandi og hljóðalaust,“ lofar hún.

Eftirhrunspólitíkin gekk út á það að hækka nær alla skatta, búa til eignaskatta sem lögðust hart á aldrað fólk og passa upp á að atvinnuleysið myndi nær eingöngu bitna á þeim sem störfuðu í einkageiranum. Niðurskurðurinn í opinberum útgjöldum sneri að þjónustu við þá sem greiddu fyrir hana, en ekki að opinberum starfsmönnum.

Ef valið stendur á milli fyrirhrunspólitíkur og eftirhrunspólitíkur þá veit Týr hvora tíkina hann vill.

Týr birtist í Viðskiptablaðinu 14. ágúst 2014. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.