Þegar framkvæmdir hófust við varnargarða við Bláa lónið og orkuver HS Orku í Svartsengi þegar eldgos hófst þar um slóðir fyrr í vetur hófst umræða um eignarhald á orkufyrirtækjum. Gagnrýnt var að ríkið væri að kosta fé til þess að verja eignir einkafyrirtækja á borð við HS Orku.

HS Orka er til helminga í eigu lífeyrissjóða og sjóða í stýringu Ancala Partners. Jarðvarmi, sem er félag lífeyrissjóðanna um eignarhlutinn í HS Orku, fékk Arctica Finance til að gera úttekt á arðgreiðslum og fjárfestingum HS Orku annars vegar og Landsvirkjunar og OR hins vegar en síðarnefndu fyrirtækin eru í opinberri eigu sem kunnugt er. Úttektin tekur til áranna frá 2019 en þá tóku núverandi eigendur við rekstrinum.

Screenshot 2024-03-26 at 19.11.21
Screenshot 2024-03-26 at 19.11.21

Ætla mætti af umræðunni á þingi og í fjölmiðlum að arðgreiðslur HS Orku hafi verið hlutfallslega meiri en hjá Landsvirkjun og OR á meðan fjárfesting í innviðum hafi verið lægri. Rétt er að halda því til haga að í þessari umræðu var því oft haldið fram að eigendur HS Orku „væru að skræla félagið að innan“ eins og það var orðað á einum stað.

Einkafyrirtækið með lægstu arðgreiðslurnar

Úttekt Arctica sýnir fram á hið gagnstæða. Þegar allt er tekið til nema heildararðgreiðslur til hluthafa HS Orku tæplega 15 milljörðum króna. Þar með er ekki öll sagan sögð því á móti koma greiðslur frá hluthöfum til HS Orku í formi hlutafjárlækkunar og hluthafaláns 12,3 milljörðum króna og nema því nettó greiðslur 2,3 milljörðum króna.

Á sama tíma hefur Landsvirkjun greitt íslenska ríkinu tæplega 60 milljarða í arðgreiðslur og 18 milljarðar hafa runnið úr OR í rekstur Reykjavíkurborgar.

Jafnframt sýnir úttektin fram á að fjárfestingar HS Orku hafa verið hlutfallslega meiri en fjárfestingar Landsvirkjunar og OR þegar litið er til eigna og fastafjármuna.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.