Tryggvi Þór Herbertsson forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að hugsanlegt sé að íslensk heimili hefji endurfjármögnun á húsnæðislánum í stórum stíl eftir að hagstæð íbúðalán eru komin til sögunnar í bankakerfinu, þ.e. borgi upp lán frá Íbúðalánasjóði með nýjum hagstæðari lánum. Enginn kostnaður fylgir því fyrir viðskiptavini Íbúðalánasjóðs að greiða upp húsbréfalán en hins vegar fylgir því kostnaður fyrir sjóðinn; hann tapar vaxtatekjum sem hann hefði ella haft af lánunum en getur ekki greitt upp sín eigin lán með sama hætti. "Þetta myndi þýða aukinn kostnað fyrir þá viðskiptavini sem eru enn í kerfinu eða þá að sjóðurinn færi á hausinn," segir Tryggvi Þór.

Sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við telja alveg ljóst að Íbúðalánasjóður gæti tapað tugum milljarða ef stór hluti viðskiptavina Íbúðalánasjóðs greiddi upp húsbréfalán sín. Á endanum myndi slíkt áfall að líkindum lenda á ríkissjóði.

Stóra fréttin í þessu er hins vegar að mínu mati sú að íslenskir vextir eru farnir að nálgast það sem gerist erlendis," segir Tryggvi Þór. "Ástæðan er held ég fyrst og fremst samkeppnin. Menn eru að reyna að ná sér í kúnna. Íslensku bönkunum stendur til boða hagstætt fjármagn á erlendum mörkuðum sem þeir geta endurlánað með lágum vöxtum. Breytingin er þessi aukna samkeppni og vilji stjórnenda bankanna til að bjóða viðskiptavinum sínum upp á betri kjör." Tryggvi er spurður hvers vegna þetta hafi þá ekki gerst fyrr og svarar: "Ætli viljann hafi ekki skort þegar þetta skipti engu máli, þegar þetta voru ríkisbankar sem rúlluðu einhvern veginn áfram og öllum stóð á sama."

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag