Sagnfræðiáhuginn kom sér að góðu hjá Stefáni Pálssyni og Ragnari Kristinssyni en þeir hafa gefið út Íslandssöguspil. Þeir félagarnir lærðu saman sagnfræði við Háskóla Íslands fyrir fáeinum árum og hafa haldið kunningsskap síðan. Það er Lára Garðarsdóttir sem myndskreytti spilið og ber Stefán henni vel söguna. „Þetta er eigulegur gripur,“ segir hann.

Höfðu báðir lausan tíma
„Það stóð þannig á að við höfðum lausan tíma og ákváðum að gefa út spil. Við gerum það frá a-ö þannig að núna er maður að læra á skattskýrslugerð og keyra það í búðir og svona,“ segir Stefán.

Hugmyndin að nýja Íslandssöguspilinu er fengin úr bernsku. „Við höfum svona sem pjakkar drukkið í okkur söguspilið gamla. Það kom út svona ´76, ´77, ´78 eða eitthvað svoleiðis,“ segir Stefán. Þeir félagar hafi þó komist á þá skoðun að Söguspilið væri ekkert sérstaklega skemmtilegt. Það væri alveg tilefni til að gefa út nýtt spil

Kaupendur þrói sína drykkjuleiki sjálfir
Stefán segir að nota megi spilið við margvísleg tækifæri. „En af því að það er ég sem stend þarna að baki þessu þá halda margir að þetta sé spurningaspil. Það er það ekki. Þarna eru börn og unglingar að keppa við fullorðna á jafnréttisgrundvelli,“ segir Stefán. Hann segir að höfundar spilsins hafi ekki þróað drykkjuleiki út úr spilinu. „Kaupendur verða bara að gera það sjálfir,“ segir hann.