Íslenskar lánastofnanir gætu þurft að afskrifa hundruð milljarða komist EFTA-dómstóllinn að því að verðtrygging lána sé ólögleg. Hæstiréttur Íslands komst í gær að þeirri niðurstöðu að leita beri ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á því hvort slík lán samræmis tilskipunum Evrópusambandsins. Um helmingur verðtryggðra skulda liggur hjá Íbúðalánasjóði.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr á árinu að íslensk heimili skulduðu í lok janúar 1300 milljarða vegna verðtryggðra lána en þar af er langstærstur hluti vegna lána til íbúðakaupa. Um 52% af öllum lánum bankastofnana til íslenskra heimila eru verðtryggð en í dag eru óverðtryggð lán um 30% af heildarlánum innlánsstofnana til heimila og um 28% af íbúðalánum.

Erfitt er að meta hversu stór hluti verðtryggðra lána er vegna uppsafnaðra verðbóta sem hafa fallið á lánin frá árinu 2008 en verðbætur hlaupa eflaust á tugum ef ekki hundruðum milljarða þar sem verðbólga hefur verið um 43% frá janúar 2008.

Áður hefur verið bent á að nýju bankarnir hafi keypt lánasöfn gömlu bankanna með afföllum og ættu því að geta nýtt það svigrúm til að færa niður lán til einstaklinga.