Bæði Húsasmiðjan og Rúmfatalagerinn munu ekki framlengja leigusamninga sína við Eik vegna eigna á Akureyri. Húsasmiðjan hefur gert slíkt hið sama hvað varðar eign Eikar á Selfossi. Þetta kemur fram í stjórnendauppgjöri Eikar sem birt var í gær.

Rúmfatalagerinn hefur verið staðsettur inn á Glerártorgi á Akureyri en ekki kemur fram hvort verslunin hyggst loka alfarið norðan heiða eða færa sig um set. Leigusamningur aðila rennur sitt skeið um mitt þetta ár. Hvað Húsasmiðjuna varðar renna samningarnir út um mitt næsta ár.

Enn fremur kemur fram að ráðgert sé að Landsbankinn muni flytja starfsemi sína í nýjar höfuðstöðvar á síðari hluta ársins 2022. Býst Eik við því að samhliða muni bankinn hætta að leigja eignir af félaginu í Kvosinni.

Samanlögð mánaðarleiga fyrrgreindra eigna, það er Rúmfatalagersins, Húsasmiðjunnar og Landsbankans, er um 50 milljónir króna á mánuði. Eik gerir ráð fyrir að langtímaáhrif téðra breytinga verði lítil.

Í uppgjörinu kemur enn fremur fram að á síðasta ári hafi ein eign bæst í safnið hjá félaginu en það er Skeifan 9. Eignin var áður í eigu Hölds og Bílaleiga Akureyrar starfrækt þar. Fyrir átti Eik Skeifuna 7 en samkvæmt deiliskipulagi eru eignirnar innan sama reits. Litið er á eignina sem þróunareign og bindur félagið vonir við að hægt sé að hefja uppbyggingu þar í framtíðinni.

Ein eign var seld á árinu en það var Járnháls 2. Bókfærður söluhagnaður hennar var metinn um 150 milljónir króna. Bókfært virði fasteigna félagsins nam 100 milljörðum króna og 316 milljónum betur í lok síðasta árs.